Back to photostream

Gráthafið

Ég vaknaði við það eina nóttina að mamma sat við rúmstokkinn hjá mér grátandi. Hún var grátandi og tárin láku niður kinnarnar og lentu í sænginni og gerðu hana blauta svo ég varð rök á fótunum. Mamma grét æruna og afa í fangelsinu og píanóin. Og hún grét og grét og grét og grét og tárin runnu svo þau urðu að polli og þarnæst að fossi og svo að á og svo að hafi og þar dúaði ég um á öldunum, ennþá í rúminu mínu, blaut í fæturnar. Hafið var ylvolgt og salt eins og tárin hennar mömmu og sjóndeildarhringurinn var endalaus. Fyrir framan mig var himinn og fyrir aftan mig og til vinstri var líka himinn og til hægri sá ég svarta örsmáa dýla sem mörkuðu svæðið þar sem himininn mætti tárahafinu hennar mömmu. Ylvolg hafgolan bar með sér angann af viði og píanóleik og ilmvatninu hennar mömmu sem var eins og rósir og ferskjur og örlítið eins og sítróna. Dílarnir stækkuðu löturhægt og ég dottaði í rúminu sem vaggaðist svo rólega á örlitlum öldunum. Golan var svo fersk og bar með sér svo góða angann og sólin var hátt á lofti og yljaði mér svo notalega.

Ég opnaði augun aftur og sá að dýlarnir höfðu stækkað meira og breyst í píanó. Þegar þau vögguðu til og frá barst stöku tónn frá þeim. Fyrst heyrði ég einn sérlega háann sem vakti mig, svo vaggaði ein af svörtu nótunum fyrir miðju til mín og þarnæst önnur há og loksins ein djúp og voldug sem skók mig að innan þótt hún væri langt aðkomin. Ég kallaði til píanóanna, "Hey! Komiði!" en þau héldu bara áfram löturhægu vagginu í öruggri fjarlægð. Loks tók eitt píanóið af skarið og skreyddist eftir haffletinum í áttina til mín. Ég teygði út höndina en það hætti sér ekki svo nálægt að ég gæti snert það. Ég sá núna að viðurinn var bólginn og sprunginn og lyklarnir þrýstust hver að öðrum svo varla var pláss fyrir þá alla. Fyrir ofan lyklana voru lítil blóm máluð á viðinn og lakkað yfir. Það var sprunga í gegnum stærsta blómið sem var fyrir miðju í blómabreiðunni. Hin píanóin höfðu fylgt því fyrsta eftir og hópuðust nú í kringum rúmið mitt svo ég gat skoðað þau öll og strokið fingrunum yfir sprunginn viðinn þannig að blautar flísar hrukku undann fingurgómunum og skildu eftir sig lykt af lökkuðum viði. Þau virtust svo stúrin, öll svona uppfull af tárunum hennar mömmu sem höfðu einhvernegin smeigt sér innfyrir lakkhúðina. Viðurinn hafði drukkið í sig vatnið af áfergju og orðið bústnari og feitari og vildi núna ekki vera píanó lengur, heldur sjóreki. Nokkrir lyklar svömluðu nú þegar í kringum píanóin. Það gerði mig sorgmædda að sjá þessi stóru hljóðfæri sem enginn gæti spilað á nokkrusinni framar. Ég reisti mig á fætur við gaflinn á rúminu og teigði út höndina þar til ég náði taki á einu af píanóunum. Það skall laust við höfðagaflinn þegar ég togaði það til mín og ég lauk upp lokinu fyrir strengjaverkið og klifraði inn með sængina mína og koddann í eftirdragi. Hljómar og óhljómar þeyttust upp frá strengjunum þegar ég tróð á þeim til þess að koma sænginni minni fyrir þannig að ég gæti legið ofan á henni hálfri og undir henni hálfri. Koddinn fór undir hausinn og þannig hálfsat ég, hálflá innaní píanóinu og horfði upp á bláann himininn. Það sveif á mig höfgi og ég teigði mig upp til að loka á píanóinu og lagði svo augun aftur í myrkrinu og hlustaði á óminn sem gaus upp frá píanóstrengjunum við hverja hreyfingu mína.

 

240 views
0 faves
0 comments
Uploaded on August 19, 2013
Taken on August 20, 2013